144. löggjafarþing — 116. fundur,  1. júní 2015.

afgreiðsla umhverfis- og samgöngunefndar á frumvarpi um Reykjavíkurflugvöll.

[10:10]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Þetta mál snýst að mestu leyti um vinnubrögð og hv. þm. Höskuldi Þór Þórhallssyni tekst að láta hv. þm. Jón Gunnarsson meira að segja líta vel út í samanburðinum í þessu máli. Þetta er það mikið níðingsverk sem hér átti sér stað í morgun. Menn vinna bara ekki svona, koma ekki með endurskrifað frumvarp kl. 8.13, þetta er allt til, tímasett í okkar tölvum, og rífa málið út kl. 8.25.

Ég hef verið frekar fylgjandi því að flugvöllurinn sé í Vatnsmýrinni á meðan ekki fæst annar viðunandi staður fyrir hann, en svona vinnubrögðum er ég ekki til í að taka þátt í. Þetta er eins og hv. þm. Róbert Marshall sagði reginhneyksli, þetta er þinginu ekki sæmandi og við eigum að henda þessu máli aftur inn í nefndina og fá að tala við þessi sveitarfélög og ráðuneyti sem í hlut eiga.