144. löggjafarþing — 116. fundur,  1. júní 2015.

afgreiðsla umhverfis- og samgöngunefndar á frumvarpi um Reykjavíkurflugvöll.

[10:11]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Hér er verið að búa til fárviðri úr engu. (Gripið fram í.) Þetta mál er búið að vera á dagskrá nefndarinnar undanfarnar vikur, var á dagskrá nefndarinnar nú í morgun (KaJúl: Ekki …) þannig að menn máttu algjörlega vita að það stæði til að taka þetta mál út enda var gestakomum lokið. Hér er fullyrt að það hafi ekki verið gestir í þessu máli. (Gripið fram í.) Þeim var algjörlega lokið, öllum gestakomum, og ég varð meira að segja við öllum þeim óskum sem bárust frá stjórnarandstöðunni um aukagestakomur. Það er bara ekki rétt sem haldið er fram hér í dag, það er fullyrt að verið sé að taka allt skipulagsvald af sveitarfélögum. Það er rangt. Það er verið að taka það af í þessu undantekningartilviki sem snýr að alþjóðaflugvöllum í landinu og heyra undir mikilvægustu samgönguinnviði landsins, mál sem snýr augljóslega að þjóðarhagsmunum.

Hér er svo fullyrt að þetta brjóti gegn stjórnarskránni. Ég bið menn að lesa 78. gr. sem segir að sjálfsákvörðunarvaldið sé hjá sveitarfélögunum nema Alþingi ákveði annað. Það er nákvæmlega það sem við erum að gera.

Varðandi það að skipulagsnefndin (Forseti hringir.) eigi að fara til innanríkisráðherra, að sjálfsögðu, hún fer með umsjón mála varðandi skipulagsnefnd Keflavíkurflugvallar og hún fer með samgöngumálin í þessu landi. Þetta er samgöngumál, virðulegi forseti.