144. löggjafarþing — 116. fundur,  1. júní 2015.

afgreiðsla umhverfis- og samgöngunefndar á frumvarpi um Reykjavíkurflugvöll.

[10:21]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Mikið hefði verið gagnlegt ef það hefði verið bein útsending frá þessum nefndarfundi í morgun. Mikið væri gagnlegt ef almenningur fengi að sjá hvað gerist á þessum vinnustað fyrir utan þessa pontu. Maður hefur ítrekað reynt að verja þingið og þá gjörninga sem hér eiga sér stað með því að segja að nefndarstarf sé gott. Það hefur ekki verið það undanfarið. Ég hef áhyggjur af stöðu Alþingis, forseti, og ég skora á forseta að bregðast við því ástandi sem hér er nú og kalla saman þingflokksformenn og fara yfir stöðuna. Ég trúi því ekki að þingflokksformenn meiri hlutans séu sáttir við svona vinnubrögð, ég trúi því ekki. Ég trúi því ekki að formenn flokkanna séu sáttir við svona vinnubrögð, ég trúi því ekki, forseti.

Er enginn áhugi á að finna faglega ferla þar sem við getum unnið saman, sameiginlega, að málefnum sem skipta þjóðina máli? Hvers konar vinnubrögð eru þetta? Ég kom inn í vinnuna bara frekar jákvæð í morgun og þetta er það fyrsta sem blasir við og maður fer í fullkomið ójafnvægi (Forseti hringir.) af því hvernig sumir þingmenn meiri hlutans taka sér ægivald.