144. löggjafarþing — 116. fundur,  1. júní 2015.

afgreiðsla umhverfis- og samgöngunefndar á frumvarpi um Reykjavíkurflugvöll.

[10:23]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Herra forseti. Það er búið að taka starfsáætlunina úr sambandi. Það er engin nefndatafla í sambandi. Það hafa engir fundir verið haldnir um framhald þingstarfa. Ég var erlendis í fjóra daga og þegar ég kem heim er eins og tíminn hafi hreinlega ekki liðið, það hefur ekkert gerst, enginn talað saman. Ætlar hæstv. forseti að halda svona áfram? Ætlar hæstv. forseti að halda áfram með þingið í upplausn? Nefndir funda ekki, stöðug ný deilumál að koma upp á yfirborðið og engin tilraun er gerð til að fara yfir hvaða mál nákvæmlega eiga að vera í forgangi hjá hæstv. ríkisstjórn þannig að við getum sest niður og farið yfir hvernig við ætlum að ljúka þinghaldinu einhvern tíma. Ég segi „einhvern tíma“, því að ég hef að sjálfsögðu ekki hugmynd um það. Ég hef ekkert á móti því að við fundum áfram inn í júní, en þá verður að vera skipulag á hlutunum. Þessi ímynd þingsins sem fólk fær í gegnum beina útsendingu á stóran þátt í því litla trausti (Forseti hringir.) sem fólk hefur á Alþingi sem stofnun, þar sem fólk getur ekki einu sinni komið sér saman um vinnulag eða hvernig dagurinn eigi að líta út. Þetta gengur ekki, herra forseti. Ég legg til að hæstv. forseti geri hlé á þingfundi þangað til við verðum búin að ákveða hvernig t.d. vikan á að líta út.