144. löggjafarþing — 116. fundur,  1. júní 2015.

afgreiðsla umhverfis- og samgöngunefndar á frumvarpi um Reykjavíkurflugvöll.

[10:24]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Þegar meiri hlutinn kemur fram með breytingartillögur í hv. allsherjar- og menntamálanefnd eru þær breytingartillögur jafnan ræddar. Þær eru ræddar í þeim tilgangi að reyna að öðlast einhverja sátt um það eða alla vega hafa á hreinu hvar fólk stendur.

Hv. formaður umhverfis- og samgöngunefndar virðist ekki leggja nokkurn metnað í það einu sinni að ræða málin nema í nokkrar mínútur og taka síðan málið út með öllum breytingunum. Hins vegar held ég að ég sé búinn að átta mig á því hvert planið er hjá hv. þingmanni. Planið er að koma í fjölmiðla sem riddari landsbyggðarinnar (Gripið fram í.) og bjarga Reykjavíkurflugvelli frá vondu, vondu Reykjavík. Ég held að það sé planið hjá honum og að hann reyni beinlínis að skapa ósætti hér til að slá sjálfan sig til riddara í þessu máli.

Virðulegi forseti. Ég biðst forláts en ég verð aðeins að segja að ég er hlynntur því að hafa flugvöllinn áfram í Reykjavík. Þetta er efnisleg umræða, (Gripið fram í.) þess vegna biðst ég afsökunar á þessu.

Vinnubrögðin á Alþingi þurfa að samræmast (Forseti hringir.) einhverju sem eitthvert smá vit er í.