144. löggjafarþing — 116. fundur,  1. júní 2015.

afgreiðsla umhverfis- og samgöngunefndar á frumvarpi um Reykjavíkurflugvöll.

[10:25]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Hæstv. forseti hefur ítrekað kallað eftir því í vetur að ríkisstjórnin komi snemma með mál. Afleiðingin af því er engin, mál koma fram seinna en nokkru sinni fyrr. Hæstv. forseti er búinn að fella starfsáætlun úr gildi, það er enginn tími lengur fyrir nefndafundi. Samt er verið að vinna í nefndum að hálfköruðum málum ríkisstjórnarinnar og enginn veit hvað er forgangsmál og hvað ekki.

Þessi vinnubrögð ganga ekki lengur og forseti verður að horfast í augu við það að forustumenn ríkisstjórnarflokkanna hafa ákveðið að niðurlægja hæstv. forseta, grafa undan verkstjórn hans í þinginu og nú eru húskarlar meiri hlutans farnir að hlaupa til og nýta sér ringulreiðina í þinginu. Forseti á núna að boða hlé á þessum fundi og krefjast þess að forsætisráðherra landsins boði fund formanna flokkanna sem hefur ekki verið boðaður um framhald þingstarfa. Svona verður ekki haldið áfram. Hæstv. forseta ber að átta sig á því að hann getur ekki sætt sig við það að formenn stjórnarflokkanna niðurlægi hann með þessum hætti. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)