144. löggjafarþing — 116. fundur,  1. júní 2015.

afgreiðsla umhverfis- og samgöngunefndar á frumvarpi um Reykjavíkurflugvöll.

[10:27]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Núna þegar starfsáætlun er ekki lengur í gildi virka þessi vinnubrögð hjá formanni umhverfis- og samgöngunefndar og meiri hluta þeirrar nefndar eins og stríðshanski hingað inn. Það er þannig. Við höfum ekki fengið að sjá forgangsmál ríkisstjórnarinnar en hljótum að leiða að því líkum að þetta sé eitt af þeim og forustumenn ríkisstjórnarinnar séu búnir að fara yfir það með formönnum nefnda hvaða mál eigi að afgreiða hratt út úr nefndum og þetta sé eitt af þeim málum.

Ég vil spyrja forseta hvort hann hafi hugsað sér að nýta þá stöðu sem er núna í þinginu, en við erum með alla formenn flokkanna í þingsal eða í þinghúsinu. Ég vil biðja forseta að nýta sér það tækifæri og fara fram á það við forsætisráðherra að hann kalli saman (Forseti hringir.) formenn flokkanna til að ræða stöðuna sem hér er.