144. löggjafarþing — 116. fundur,  1. júní 2015.

aðgerðir í þágu bótaþega.

[10:30]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Fyrir helgi kynnti ríkisstjórnin aðgerðir sem fyrirhugað væri að gripið yrði til við gerð kjarasamninga. Það er jákvætt að sjá að verkalýðshreyfingin hefur náð að þvinga ríkisstjórnina til ýmissa góðra verka, svo sem úrbóta í húsnæðismálum og skattalækkana, en við eigum þó eftir að sjá endanlega útfærslu ýmissa þessara þátta áður en unnt er að sjá nákvæmlega hvort þar er um fullnægjandi úrræði að ræða.

Það sem vekur mesta athygli er að þessar skattaaðgerðir eru útfærðar með þeim hætti að helmingur landsmanna fær lítið sem ekkert út úr þeim. Þeir sem eru með miðgildi launa eða þar fyrir neðan fá innan við 1 þús. kr. út úr þessum aðgerðum. Það er líka ljóst að aldraðir eiga að sitja eftir, öryrkjar eiga að sitja eftir og atvinnulausir eiga að sitja eftir.

Efnisröksemdin fyrir 300 þús. kr. lágmarkslaunum er sú að þau séu nauðsynleg til þess að fólk nái að sjá sér farborða, að þau sé grunnforsenda framfærslu. Það hlýtur þá að gilda líka um aldraða og aðra sem reiða sig á framlög frá hinu opinbera í gegnum grunnframfærslu almannatrygginga til að sjá sér farborða. Lægstu bætur eru nú undir 200 þús. kr. Hvernig hyggst ríkisstjórnin (Forseti hringir.) tryggja að aldraðir, (Forseti hringir.) öryrkjar og atvinnulausir fái líka notið 300 þús. kr.?