144. löggjafarþing — 116. fundur,  1. júní 2015.

framlag Íslands á Feneyjatvíæringnum.

[10:55]
Horfa

utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F):

Virðulegi forseti. Fyrst er frá því að segja að mál þetta hefur ekki með nokkrum hætti ratað inn á borð utanríkisráðuneytisins eða utanríkisþjónustunnar. Ég kannast ekki við að sérstaklega hafi verið óskað eftir aðkomu þjónustunnar að málinu, ef ég má orða það þannig. Við höfum líka í gegnum tíðina ekki talið rétt að blanda okkur beint inn í aðferðir eða þegar önnur ríki, erlend ríki beita fyrir sig mögulega sinni löggjöf og öðru slíku. Þá er það þannig í þessu tilfelli að þarna er vissulega um að ræða viðburð á erlendri grundu þar sem gilda ítölsk lög og ítalskar reglur. Ég hef í rauninni bara fylgst með þessu í gegnum fréttir, málið hefur ekki komið inn á mitt borð, eins og ég segi, og ég hef ekki séð ástæðu til þess að grípa inn í það með sérstökum hætti.

Verk þetta, eins og ég segi aftur þá þekki ég það út frá fréttaflutningi, er ákvörðun KÍM eða þeirrar skrifstofu sem fer með þetta verkefni og er í rauninni á þeirra ábyrgð. Ég hygg að það sé þeirra að svara fyrir það hvers vegna þetta verk fór út og allt það og hvort það hafi verið til þess fallið að vekja upp einhverjar spurningar og eitthvað þess háttar. Ég hef ekki heldur séð að einhvers konar ógn hafi staðið að listamanninum eða eitthvað slíkt, (Gripið fram í.) ég hef ekki séð það. Hv. þingmaður kallar hér fram í: Tjáningarfrelsinu. Tjáningarfrelsið er okkur mjög dýrmætt á Íslandi að sjálfsögðu. Ég veit ekki hvernig Ítalir líta á tjáningarfrelsið eða hver þeirra lög og reglur eru þegar kemur að því, þannig að þetta mál hefur einfaldlega ekki komið inn á mitt borð og ég hef því ekki séð ástæðu til þess að grípa neitt inn í það.