144. löggjafarþing — 116. fundur,  1. júní 2015.

lengd þingfundar.

[11:21]
Horfa

utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég styð heils hugar þá tillögu að hafa hér kvöldfund. Mér hefur reyndar fundist forseti vera með allt of stutta fundi á þingi. (Gripið fram í.) Ég hef fylgst með því. Ég hef verið í útlöndum og ekki getað tekið þátt, því miður. (Gripið fram í.) Hv. þingmaður, þið fáið örugglega orðið um frekari fundarstjórn ef hv. þingmenn (Forseti hringir.) stjórnarandstöðunnar vilja, en mig langar hins vegar að minna á að það þarf að nýta tímann vel.

Ég er svolítið sammála stjórnarandstöðunni um að það þarf að skýra hvaða tíma við ætlum að vera hérna. Ég man eftir því að þegar fyrrverandi forsætisráðherra Jóhanna Sigurðardóttir og þáverandi forseti þingsins tilkynntu að hér yrði sumarþing vegna þess að það þyrfti bara að vinna. Þá var ekki verið að tala um að það yrði sumarþing út júní eða út júlí, það yrði bara sumarþing, engar dagsetningar. Ég er þeirrar skoðunar að við eigum að hafa þing í sumar meðan við klárum þau brýnu mál sem bíða okkar. Ef ég man rétt vorum við hér sumarið 2009 og líklega sumarið 2010 til að klára þau mál sem þáverandi ríkisstjórn var með á sínu borði og lagði áherslu á. [Kliður í þingsal.] Ég held að það sé full ástæða til þess.

Og annað, virðulegi forseti, það er líka annað. Nú hafa hv. þingmenn (Gripið fram í.) Pírata boðað málþóf. (Forseti hringir.) Bæði hv. þm. Birgitta Jónsdóttir og hv. þm. Helgi Hrafn boðuðu málþóf þannig að það er full ástæða til að hafa fund til morguns í kvöld. Þú ættir að hætta, virðulegi forseti, að vera með þessa linkind. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)

(Forseti (EKG): Forseti biður hv. þingmenn að nefna aðra þingmenn fullu nafni.)