144. löggjafarþing — 116. fundur,  1. júní 2015.

lengd þingfundar.

[11:23]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Þeim í ríkisstjórninni er einkar lagið að stilla til friðar. Sérstaklega kunna framsóknarforkólfarnir það ágætlega, það er ekki ofsögum sagt. Mér sýnist sem hæstv. forseti ætli að fara fram með þessa atkvæðagreiðslu en ég hvet hann til að nýta sér ekki þá heimild sem hann væntanlega fær hér af hálfu stjórnarmeirihlutans sem ég vænti að komi ekki til með að taka þátt í umræðum í kvöld nema þá að afar litlu leyti. (Gripið fram í: Hvaða, hvaða.) Ég hefði hins vegar gjarnan viljað að sem flestir úr þingheimi sýndu smáþjóðaleikunum þá virðingu að mæta á setningarathöfn kl. 19.30. Ég spyr hvort ekki væri hægt að gera eitthvert smáhlé rétt á meðan sú athöfn gengi yfir og við gætum þá mætt til þings aftur ef forseta er mikið í mun að hafa okkur hér fram eftir nóttu. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)