144. löggjafarþing — 116. fundur,  1. júní 2015.

lengd þingfundar.

[11:27]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Það er mikill misskilningur hjá hæstv. ráðherra að sá sem hér stendur hafi boðað málþóf. Ég er að benda á það sem hæstv. ráðherra veit og þingheimur veit og allir sem fylgjast með á þinginu vita, hvernig hlutirnir virka hérna, en ekki í dag, ekki í þessum málum. Það er fullt af málum á dagskrá í dag sem enginn ágreiningur ríkir um og þetta er einn af þeim dögum sem ég mundi ekki búast við málþófi, ef ég á að segja alveg eins og er, af nokkrum síðustu vikurnar.

Hæstv. ráðherra veit nákvæmlega hvernig þetta virkar. Það eru engin rök, nú er ég að segja þetta í milljónasta skipti, að benda á seinustu ríkisstjórn og tala um hvað hún hafi verið vond og endurtaka sama leikinn, það er algjör vitleysa. Þetta eru hann byrjaði-rök, þetta er þvæla. Við eigum hins vegar að vera hreinskilin um hvernig hlutirnir virka hérna til að það sé hægt að hefja umræðuna sem hefur sem betur fer hafist um það hvernig sé hægt að laga vandann sem Alþingi er. Til að útskýra lausnirnar á þeim vanda þurfum við að ræða vandann hreinskilnislega. Það hef ég gert. Ég hef ekki boðað neitt málþóf hér og frábið mér þær ásakanir.

Að lokum legg ég til að fundir fastanefnda Alþingis verði að jafnaði opnir.