144. löggjafarþing — 116. fundur,  1. júní 2015.

lengd þingfundar.

[11:29]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég geri þá ráð fyrir því að þeir sem greiða atkvæði með þessari tillögu ætli að vera hér í samtali við okkur í minni hlutanum sem höfum meira og minna haldið þessum kvöldfundum uppi, fjallað um mál, reynt að gera það efnislega og málefnalega án þess að fá nokkurt einasta samtal, viðbrögð eða skoðun frá stjórnarmeirihlutanum. (Gripið fram í.) Ég geri þá ráð fyrir því að menn ætli að vera hér og hæstv. forsætisráðherra ætli að ræða við okkur um breytingar á Stjórnarráðinu og fleiri mál og þingmenn almennt. Svona gengur þetta ekki og ég segi það enn og aftur að forseti hefur með þessari tillögu ásamt því sem gerðist í morgun í umhverfis- og samgöngunefnd kastað ófriðarhanska inni í þingsal. Núna er tekið undir það hér og það staðfest með stjórnarmeirihlutanum. Þetta er ekki gott veganesti inn í samtal um framhaldið.