144. löggjafarþing — 116. fundur,  1. júní 2015.

lengd þingfundar.

[11:32]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég er verulega hugsi yfir orðum hæstv. ráðherra Gunnars Braga Sveinssonar sem ber linkind upp á forseta þingsins. Hann ber linkind upp á forseta þingsins úr ræðustóli Alþingis og er þar með að endurspegla afstöðu, ekki bara sjálfs sín sem ráðherra til Alþingis sem hefur ítrekað komið fram hér með bréfaskriftum og sniðgöngu annarri, heldur því miður í allt of ríkum mæli ríkisstjórnarinnar í heild gagnvart Alþingi.

Það verður ekki við það unað að ráðherra úr ríkisstjórn Íslands beri linkind upp á forseta þingsins. Ég sit ekki undir því fyrir hönd forseta og fyrir hönd Alþingis að framkvæmdarvaldið tali með þessum hætti. Ég geri alvarlegar athugasemdir við það sem og við það að með þeim hætti lætur hæstv. ráðherra eins og Alþingi sé undir hælnum á ráðherra og ríkisstjórninni. Það er sannarlega að endurspeglast með þessari atkvæðagreiðslu hér. (Gripið fram í.)