144. löggjafarþing — 116. fundur,  1. júní 2015.

lengd þingfundar.

[11:34]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Á þessum árstíma, úr því að þingið hefur ekki þegar lokið störfum, væri ekkert óeðlilegt við það að hér þyrfti kvöldfund. Ég er hins vegar á móti því að ákveða kvöldfund í upphafi dags meðan allt lítur út fyrir að það verði í hreinu tilgangsleysi. Ef eitthvað jákvætt kemur út úr fundi forustumanna flokka í dag er auðvitað hægt að greiða atkvæði um það eftir hann hvort menn þurfi fund í kvöld inn í það skipulag sem þá væri kannski komið á. Komist ekkert skipulag á held ég að slíkur fundur fari fyrir lítið. Ef eina ástæðan fyrir atkvæðagreiðslunni núna er sú að það þarf að hleypa stjórnarliðum heim og ekki má teppa þá í hugsanlegri atkvæðagreiðslu seinni part dagsins hef ég ósköp litla samúð með því sjónarmiði, virðulegi forseti.

Hæstv. utanríkisráðherra vill sumarþing. Mér sýnist allt stefna í að honum verði að ósk sinni. En ég minni menn á að jafnvel hið mesta fundahald langt inn í sumarið skilar ekki endilega miklu ef algjört upplausnarástand ríkir. Það ætti núverandi meiri hluti, a.m.k. sumir í honum, vel að þekkja miðað við lífsreynslu sína á síðasta kjörtímabili.