144. löggjafarþing — 116. fundur,  1. júní 2015.

lyfjalög.

408. mál
[11:46]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Mér finnst í grundvallaratriðum mikilvægt að þegar fólk notar lyf eða aðrar vörur lesi það fylgiseðla, lesi það efni sem fylgir þeim lyfjum, hvort sem það eru lausasölulyf eða önnur lyf, að það sé meðvitað um það. Mér þætti ágætt og ég vænti þess að á milli umræðna verði farið ítarlega í það hvernig hægt sé að koma því við að upplýsingar um aukaverkanir komi fram meðfram auglýsingum. Þar sem ég hef búið erlendis tók ég eftir því að auglýsingarnar voru einfaldlega þannig orðaðar að lyfin gætu valdið rosalegum aukaverkunum — og fólk hætti að taka eftir því. Ég held að það sé miklu mikilvægara að impra á því að fólk eigi að vera meðvitað um hvaða lyf það notar almennt.

En aftur, ég treysti því að nefndin muni sinna sínu góða starfi milli umræðna.