144. löggjafarþing — 116. fundur,  1. júní 2015.

lyfjalög.

408. mál
[11:47]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Mér finnst við vera með mál í höndunum sem við eigum að nálgast út frá því að ekki sé allt þannig að það sem er ekki bannað eigi að leyfa. Við eigum til dæmis að byrja á því að gefa okkur að það sé í lagi að auglýsa lausasölulyf með sama hætti og alls konar náttúrulækningajurtir sem eru stanslaust auglýstar í sjónvarpinu. Eftir sem áður byggjum við á því að það sé bannað að auglýsa lyfseðilsskyld lyf í miðlum, en þegar við í þessum þingsal nálgumst svona viðfangsefni út frá því með hvaða hætti einstakir miðlar geta náð betur markmiði sínu segi ég fyrir mitt leyti að miðlarnir eru til að koma upplýsingum til fólks. Þetta eru ekki hættulegir kraftar í samfélaginu sem við þurfum að verja almenning fyrir. Það er bara röng hugsun í svona málum. Í þessu máli eigum við að ganga út frá því að það sé í lagi að koma upplýsingum um lausasölulyf til neytenda og að það þurfi einhverja sérstaka réttlætingu til að viðhalda banni sem í mínum huga er orðið úrelt. Það er ekki hægt að réttlæta það með því að það sé svo mikill munur (Forseti hringir.) á ljósvakamiðlum og prentmiðlum. (Gripið fram í.)