144. löggjafarþing — 116. fundur,  1. júní 2015.

lyfjalög.

408. mál
[11:48]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Mér finnst stundum gleymast í umræðum um auglýsingar almennt að þær hafa líka jákvæðan tilgang, þær hafa þann tilgang að koma upplýsingum á framfæri til neytenda. Í tilviki lausasölulyfja, lyfja sem eru leyfð í lausasölu, getur verið mikilvægt fyrir neytendur að vita einfaldlega af tilvist þessara lyfja sem geta mögulega gert líf þeirra á einhvern hátt betra, gert fólki kleift að fást við einhverja kvilla. Það getur verið ágætt að fá þessar upplýsingar, og auglýsingagerð er liður í því að koma þeim upplýsingum á framfæri.

Það er ýmiss að gæta. Eins og kom fram í máli hv. þm. Brynhildar Pétursdóttur er mjög mikilvægt að aukaverkanir séu skýrt fram settar í þessum auglýsingum. Við í þingflokki Bjartrar framtíðar erum almennt jákvæð í garð málsins þó að einstakir þingmenn í okkar röðum geri þennan fyrirvara sem verður vonandi brugðist við í meðferð málsins á milli umræðna.