144. löggjafarþing — 116. fundur,  1. júní 2015.

lyfjalög.

408. mál
[11:52]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég hef ekki orðið þess var að ónógt lyfjaát væri vandamál á Íslandi. Þvert á móti veit ég ekki betur en að þjóðin sé heimsmeistari í því að bryðja ýmis lyf. Ég er því svolítið hissa á þeirri umræðu sem hér er og snýr að því að menn eigi að vilja rýmka reglur til að auglýsa lyf sem er vandasamt fyrirbæri. Ég held að aukin fræðsla um lyf og þar á meðal aukaverkanir þeirra, hollt mataræði og hreyfing sé það sem þurfi að leggja áherslu á frekar en að greiða götu þess að menn geti troðið meiri lyfjum inn á fólk. Ég er á móti því að fella niður takmarkanir á auglýsingum í sjónvarpi á lyfjum og ég er algerlega andvígur því að slakað verði á skyldum lyfsöluaðila til að upplýsa skilmerkilega um aukaverkanir lyfja. Að uppistöðu til finnst mér að kynning og umfjöllun um lyf eigi að vera í fagtímaritum heilbrigðisstétta.