144. löggjafarþing — 116. fundur,  1. júní 2015.

meðferð elds og varnir gegn gróðureldum.

512. mál
[12:02]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég styð málið og tel að það sé vel útbúið af hendi nefndarinnar og sé mikilvægt í mörgum skilningi. Þó hefði ég viljað sjá meiri áherslu á það sem kom fram í athugasemdum Veðurstofunnar varðandi það að tengja þessa umfjöllun almennt umfjöllun um náttúruvá. Breytingartillaga sú sem hv. þm. Róbert Marshall gerði hér grein fyrir og snýst um að banna bruna á sinu með öllu frá 1. janúar 2020 er breytingartillaga sem ég tel vera af hinu góða, styð hana þannig fram komna og tel að sú samþykkt verði málinu til góðs með þeim rökum sem komu fram í atkvæðaskýringu hv. þingmanns, þ.e. að sinubruni er ekki neinum til góðs. Það má eiginlega segja að hér sé um að ræða einungis menningarlegt mál og það sé málefnalegt að gefa þessi fimm ár til aðlögunar til að leggja sinubruna af á Íslandi.