144. löggjafarþing — 116. fundur,  1. júní 2015.

áætlun um meðferð og ráðstöfun aflamagns sem dregið er frá heildarafla.

775. mál
[12:28]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Varðandi strandveiðarnar og atvinnuna hefði þessi fiskur auðvitað verið veiddur hvort sem var þannig að spurningin er þá bara hverjir hafa atvinnu af honum. Er það þjóðhagslega hagkvæmast? Það er umræða sem við getum (Gripið fram í.) tekið og það er bent á það af hagfræðilegum úttektum að það sé ekki mikil arðsemi af þessum strandveiðum. Hins vegar held ég að við séum öll sammála um að þær séu komnar til að vera á því formi sem þær eru. Þær eru skynsamlegt innlegg í það hversu mikið á að fara til þeirra. Ég tel og það var mat starfshópsins að þetta væri í ákveðnu jafnvægi. Það voru skiptar skoðanir. Sumir vildu að þarna yrði aukið meira við, en það er komið ákveðið jafnvægi, m.a. vegna veiða smábátanna, handfæraveiða, á makríl og síld. Menn geta ekki verið allir í öllu þannig að það er komið ákveðið jafnvægi þarna á. Þær hófust í 6 þús. tonnum. Síðan var bráðabirgðaákvæði sem jók þær í 8.600 og við erum að viðhalda því ástandi í þessari þingsályktunartillögu. Ég held að þarna á sé nokkuð gott jafnvægi.

Varðandi smábátaflotann fer það auðvitað eftir því hvort makríllinn gangi á grunnslóð hvort það verði hægt að nýta annars vegar þau 5% sem eru í frumvarpinu og hugsanlega þessi 5,3%. En það er mjög mikilvægt að við höfum líka tryggingu til að það verði nýtt af þjóðinni til þess að við stöndum betur að vígi eða höldum stöðu okkar gagnvart öðrum ríkjum í samningaviðræðum um makrílinn.