144. löggjafarþing — 116. fundur,  1. júní 2015.

áætlun um meðferð og ráðstöfun aflamagns sem dregið er frá heildarafla.

775. mál
[13:02]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Nú er ég ekki orðin sjávarútvegsráðherra en kannski kemur að því, ekki enn. En eins og ég skil þetta þá er þessi reglugerð ekki til en hæstv. ráðherra hefur trúlega heimildir í lögum til að setja slíka reglugerð á og ég reikna með því að búið sé að tryggja það.

Ég er sama sinnis og hv. þingmaður og hv. þm. Kristján L. Möller hvað það varðar að mjög brýnt sé að eitthvað af þessum tekjum renni til sveitarfélaga. Í því frumvarpi sem ég hef vitnað til hér, um þessi mál, frá síðasta kjörtímabili, var reiknað með að hluti af tekjum, sem kæmu inn vegna leigupotts ríkisins á aflaheimildum, færi til landshlutasamtaka. Þá lít ég þannig á að það mundi nýtast í sóknaráætlun og í uppbyggingu sem þar er á ferð. Í mínum huga hafa sóknaráætlanir verið ein besta byggðaaðgerð sem farið hefur af stað og það tæki sem hefur gagnast vel.

Auðvitað eru allt of litlir fjármunir áætlaðir í sóknaráætlun. Ég tel að það væri gott mál að þessir fjármunir, sem reiknað er með að komi inn vegna útleigu á makríl og fleiri tegundum, mundu nýtast og fara í gegnum sóknaráætlun því að þar eru menn með puttann á púlsinum, hvað brennur á mönnum á viðkomandi svæðum og í sveitarfélögunum. Ég tel að það eigi að skoða þann farveg því að ég held að hann sé bara mjög góður og aðkoma margra lýðræðislegra fulltrúa sveitarfélaga á þeim vettvangi.