144. löggjafarþing — 116. fundur,  1. júní 2015.

áætlun um meðferð og ráðstöfun aflamagns sem dregið er frá heildarafla.

775. mál
[13:06]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Jú, það hlýtur að skýrast, þegar við förum að ræða þessi mál í atvinnuveganefnd, hvaða tekjur er hugsanlega um að ræða, sem gætu nýst til uppbyggingar vítt og breitt um landið í sjávarbyggðum. Ég tel að hugsa þurfi til blandaðra leiða. Eins mikið og ég hef talað fyrir eflingu sjávarbyggða á forsendum sjávarútvegs, bæði til lands og sjávar, og möguleika á nýliðun; að það fólk sem byggir sjávarbyggðirnar hafi möguleika á að lifa sjálfbæru lífi miðað við þær auðlindir sem eru allt í kringum þessar sjávarbyggðir.

Þá er líka mikilvægt að horfa til fjölbreytni í atvinnulífi og möguleika á að styrkja fjölbreyttari vinnu svo að ég held að þær tekjur sem koma inn með slíkum hætti eigi að miðast við að horfa til þess að auka möguleika á fjölbreytni í atvinnulífi og styrkja þær frumgreinar sem eru á þessum svæðum eins og sjávarútveg.

Ferðaþjónustan hefur verið að byggjast upp víða og líka í þessum minni sjávarplássum. Þá hefur það spilað saman, sjávarútvegur og ferðaþjónusta, eins og í sjóstangveiðifyrirtækjum sem hafa gengið mjög vel og eru að eflast mjög á þessum stöðum. Þetta þarf allt að haldast í hendur. Ferðaþjónustuaðilar á þessum minni stöðum segja mér að það að öflugar strandveiðar séu yfir sumarið geri mjög mikið fyrir ferðamenn sem heimsækja þessa staði og sjá að þetta eru ekki einhver söfn og sýningar heldur er þarna lifandi byggð sem blómstrar og lifir af því sem landið og sjórinn gefa.