144. löggjafarþing — 116. fundur,  1. júní 2015.

áætlun um meðferð og ráðstöfun aflamagns sem dregið er frá heildarafla.

775. mál
[15:40]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Forseti. Hv. þingmaður vék nokkuð að því atriði sem ég ætlaði að impra á hérna við hann og hann útskýrði ágætlega það sem ég kem að og má kannski segja að góð vísa sé aldrei of oft kveðin. Það varðar strandveiðarnar. Það kemur fram í greinargerð með tillögunni að arðsemi af veiðunum sjálfum sé neikvæð samkvæmt úttekt Hagstofunnar sem birt er í ritinu Hagur veiða og vinnslu og því sé sérstaklega mikilvægt að horfa til úttektar á atvinnu- og byggðaáætlun strandveiða í þeirri úttekt sem verið er að vinna. Auðvitað hlýtur það að vera þannig, þegar um er að ræða atvinnugrein þar sem stendur skýrum stöfum, eins og hér, að ekki sé arðsemi af greininni, að fólk hrökkvi í kút. Ég hrekk að minnsta kosti svolítið í kút. Mér fannst hv. þingmaður útskýra þetta þannig að það gerði ekki mikið til vegna þess að menn hefðu hvort sem er í sig og á og síðan mundi þetta regúlerast af sjálfu sér.

Mig langar í framhaldi af þessu að spyrja. Ég hef heyrt að aflinn frá strandveiðibátunum sé oft og tíðum ekki jafn góður eða fari á lægra verði en af öðrum veiðum. Mig langaði til að spyrja hv. þingmann hvort hann geti sagt (Forseti hringir.) mér hvort hann þekki til þess. Það hlýtur að koma arðseminni eitthvað við líka.