144. löggjafarþing — 116. fundur,  1. júní 2015.

áætlun um meðferð og ráðstöfun aflamagns sem dregið er frá heildarafla.

775. mál
[15:45]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Forseti. Við erum hér að tala um þingsályktunartillögu sem snýst um það að 5,3% af heildaraflanum verði ráðstafað sérstaklega. Hv. þingmaður sagði að þetta hefði reynst vel og hann vildi jafnvel að aflamagnið yrði aukið og talaði um 8–10%.

Virðulegi forseti. Getur þingmaðurinn deilt með mér þeirri hugsun hvernig við eigum að ákveða hve mikið fer í þetta? Ég er sjálf alltaf svolítið hrædd við það þegar stjórnmálamenn taka svona ákvarðanir um að 10% fari í þetta og 8% í hitt. Ég veit að stundum verðum við að gera það, en hvaða aðferð er best? Af hverju er þetta 5,3%? Af hverju væri betra ef þetta væri 8%? Hvernig eigum við að finna út hvaða tala kemst næst því að vera best og hagkvæmust fyrir okkur í þessu tilfelli?