144. löggjafarþing — 116. fundur,  1. júní 2015.

um fundarstjórn.

[17:31]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegur forseti. Ég vil lýsa vonbrigðum með að á fundi með formönnum flokkanna nú áðan komu talsmenn ríkisstjórnarflokkanna tómhentir til fundar og lögðu ekki fram neinn lista yfir forgangsmál af sinni hálfu. Þegar svo er komið sem nú er í þingstörfum og við glímum við það að mál hafa komið seint fram, eru illa unnin í nefndum og komið er fram á sumar er brýn þörf á því að ríkisstjórnin ráði við það að stjórna landinu og sýni það með því að axla ábyrgð á stöðunni og setja fram forgangsmál sín og taka helstu ágreiningsmálin til hliðar eða leita samninga um þau. Mér finnst afskaplega sorglegt að sjá að ríkisstjórnin virðist ekki ráða við það og mér finnst þjóðin og þingið eiga betra skilið. Ég verð að gera athugasemdir við það að á meðan svona háttar til í þingstörfum sé áfram haldið með þingfundi endalaust og verið að funda í þingnefndum án þess að nokkur viti hvernig stefnan (Forseti hringir.) er um framhald þingstarfa. Ég óska eftir að forseta geri nú hlé á þessum fundi (Forseti hringir.) og þessari umræðu í framhaldinu og að skilaboðum verði komið til formanna þingnefnda um (Forseti hringir.) að halda aftur af boðun þingnefndafunda að svo komnu.