144. löggjafarþing — 116. fundur,  1. júní 2015.

um fundarstjórn.

[17:33]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég kem fyrst og fremst hér upp til að lýsa áhyggjum mínum. Ég hafði bundið vonir við að fundur formanna flokkanna mundi boða það að við gætum náð saman um hvernig ljúka ætti þinghaldi. Við vitum öll hvernig þessi staða hefur skapast og hér hafa verið stór og umdeild mál til umræðu, mál þar sem ekki er bara deilt um innihald heldur einnig um form og vinnubrögð. En því miður er ég ekki bjartsýn eftir þennan fund þannig að ég vil ítreka við virðulegan forseta að ábyrgð hans gagnvart því hvernig við höldum hér áfram er rík. Það skiptir máli að hv. þingmenn hafi einhverja hugmynd um hvernig við reynum að haga vinnulagi okkar þó að óvissan sé mikil því að það er mikilvægt að við berum virðingu fyrir starfsáætlun Alþingis. Þegar starfsáætlun Alþingis er á enda runnin er ekki hægt að koma hér og ætlast til þess að öll mál stjórnvalda verði afgreidd á einhverri hraðferð. Það er algjört virðingarleysi við þingræðið (Forseti hringir.) í landinu og þannig getum við ekki unnið, herra forseti.