144. löggjafarþing — 116. fundur,  1. júní 2015.

um fundarstjórn.

[17:34]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegur forseti. Það er mér í raun og veru ráðgáta að allir formenn flokkanna skuli ekki átta sig á því að á þessum tímapunkti þegar við erum komin fram yfir starfsáætlun og nefndirnar eru í strögli vegna þess að það er engin tímatafla í gildi fyrir nefndirnar og þær hafa einfaldlega ekki lokið yfirferð á mjög umfangsmiklum málum og stór mál eru ekki einu sinni komin inn í þingið, hafa bara verið boðuð, að það þarf auðvitað að forgangsraða við slíkar aðstæður. Það þarf að hafa einhverja áætlun og eitthvert plan um hvað við ætlum að klára. Það þarf að meta hvaða mál er óraunhæft að klára út frá því hversu mikill ágreiningur er um þau og setja þau mál þá í annan farveg. Ég hefði haldið að sú vinna blasti við. Þess vegna var fundur formanna stjórnmálaflokkanna mér vonbrigði áðan. (Forseti hringir.)

Að lokum legg ég til að fundir formanna stjórnmálaflokkanna séu alla jafna opnir. [Hlátur í þingsal.]