144. löggjafarþing — 116. fundur,  1. júní 2015.

um fundarstjórn.

[17:36]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Ég legg til og mæli með því að forseti taki þennan lista, forgangslista ríkisstjórnarinnar, sem inniheldur, nota bene, öll málin sem eru á Alþingi, og skeri hreinlega úr honum það sem forseti telur raunhæft að klára fyrir 17. júní. Forseti hefur dagskrárvaldið, og ég legg til að forseti beiti dagskrárvaldi sínu, til þess hefur hann umboð okkar þingmanna, allra, hvar í flokki sem við stöndum. Það er ekki boðlegt að bjóða okkur upp á að boða ekki til fundar fyrr en tími starfsáætlunar þingsins var á enda runninn og koma síðan með lista með öllum þingmálum. Ég er alveg viss um að forseti þekkir það hvernig reka á fyrirtæki. Ef maður mundi reka fyrirtæki á þennan hátt væri það löngu komið á hausinn, eða eins og fyrrverandi hv. þm. Þór Saari sagði: Ef Alþingi væri spítali væru allir sjúklingarnir dauðir.