144. löggjafarþing — 116. fundur,  1. júní 2015.

um fundarstjórn.

[17:41]
Horfa

Róbert Marshall (Bf):

Virðulegi forseti. Í þessari stöðu er auðvitað ekkert annað að gera en að fresta fundi og kalla menn aftur að borðinu. Það sem fram fór í dag á milli formanna flokkanna var ekki á nokkurn hátt samningafundur til að leysa erfiða stöðu sem upp er komin heldur í raun og veru bara tímaferðalag aftur til septembermánaðar, til upphafs þessa þingvetrar, vegna þess að þingmálalistinn sem forsvarsmenn ríkisstjórnarinnar lögðu fram er bara sá þingmálalisti sem lagður var fram í upphafi þings.

Nú erum við komin fram yfir starfsáætlun, henni lauk síðastliðinn föstudag, og það er ekki hægt að segja neitt annað en að það sé einhvers konar rof á milli skynjunar og veruleika hjá forsvarsmönnum ríkisstjórnarinnar í þessum efnum. Þetta er ekki það sem mun gerast hér í þinginu, að menn séu að fara að ljúka öllum málum ríkisstjórnarinnar og líka þeim sem hafa staðið (Forseti hringir.) stórkostlegar deilur um, það mun ekki gerast.