144. löggjafarþing — 116. fundur,  1. júní 2015.

um fundarstjórn.

[17:43]
Horfa

Forseti (Einar K. Guðfinnsson):

Einhver misskilningur er í gangi hvað varðar það sem hv. þingmaður nefndi hér í lokin. Aðkoma forseta að þessum lista var sú að búa til lista yfir mál sem nefndir flyttu annars vegar og hins vegar mál sem afgreidd hefðu verið úr nefndum. Þar var tiltekið þingmannamál, var þar um að ræða mál frá hv. þm. Vilhjálmi Árnasyni, hv. þm. Björt Ólafsdóttur, hv. þm. Helga Hrafni Gunnarssyni og ef til vill fleirum.

Forseti var að reyna að halda utan um málin og gera sem best grein fyrir því hver staða mála væri hér í þinginu. Forseti harmar ef það hefur orðið til þess að flækja þetta mál því að það var ekki ætlun forseta, ætlun forseta var einfaldlega að þessi mál lægju sem gleggst fyrir hv. þingmönnum og forustumönnum flokkanna þegar farið væri að ræða öll þessi mál svo taka mætti afstöðu til þeirra.