144. löggjafarþing — 116. fundur,  1. júní 2015.

um fundarstjórn.

[17:54]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Ég velti því fyrir mér áður en til formannafundarins kom hvort það mundi virkilega vera þannig að ég þyrfti að koma hér upp í ræðustól og lýsa vonbrigðum mínum. En vonbrigði eru eiginlega ekki nógu sterkt orð yfir það sem er að gerast núna. Mér finnst það alveg forkastanlegt að í raun hafi ekki neitt komið út úr fundinum og að ekki hafi komið neinn alvörulisti með alvöruforgangsmálum sem ríkisstjórnin leggur áherslu á að verði kláruð á þessu þingi. Ég veit ekki hvort það þarf að endurtaka það enn einu sinni að starfsáætlunin er runnin úr gildi. Það eitt og sér hrópar auðvitað á að það þarf að gera nýtt plan og á þessum tímapunkti þarf það plan að innihalda forgangsröðun.

Ég vil því beina því og biðla til hæstv. forseta að hann slíti fundi og kalli aftur saman formenn til þess (Forseti hringir.) að setjast niður og ganga frá áætlun.