144. löggjafarþing — 116. fundur,  1. júní 2015.

um fundarstjórn.

[17:57]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegur forseti. Það er ekki alveg einfalt að átta sig á því þegar þrjú blöð eru heftuð saman í horn og á fremstu síðunni stendur „forgangslisti“ að það gildi aðeins um tvær fremri blaðsíðurnar en ekki þá síðustu. Ég þakka því virðulegum forseta fyrir að leiða okkur í allan sannleik um hvað það þýddi. Vil ég þá aftur spyrja hæstv. forseta hvort hann hafi áttað sig á því fyrir fundinn að forustumenn ríkisstjórnarflokkanna ætluðu að bjóða stjórnarandstöðunni upp á það að koma með lista með öllum sínum málum, 70 málum, og halda að slíkur fundur væri til einhverrar lausnar á stöðunni.

Ég skora á virðulegan forseta að freista þess sjálfur í krafti embættis síns að taka utan um þessa stöðu, að taka utan um þessi mál, koma skikki á störf nefnda, koma skikki á störf þingsins og koma skikki á forustu ríkisstjórnarflokkanna og leiða þeim fyrir sjónir að það er ekki hægt annað ef menn láta eins og eitthvað heiti forgangslisti en að það sé þá listi (Forseti hringir.) yfir það sem er í forgangi.