144. löggjafarþing — 116. fundur,  1. júní 2015.

um fundarstjórn.

[18:04]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Þér hafið allmikla þingreynslu og þekkið af eigin raun að hér er alsiða að fjöldi mála komist ekki til afgreiðslu í lok þings. Það er eitthvað sem hefur meira að segja valdið því að hér hefur verið rætt um að mál fái að lifa á milli þinga því það hefur þótt erfiðleikum háð að þurfa að fjalla um mál oftar en einu sinni og jafnvel oftar en tvisvar.

Hæstv. forseti. Nú er kominn 1. júní. Það eru sárafá mál í þinginu sem þola ekki bið og sárafá dagsetningarmál. Svo er allnokkuð um mál sem hafa verið afgreidd í sátt og samheldni og það ætti að vera lítið mál að setjast yfir þetta og koma skikki á hlutina. Til þess hefur hæstv. forseti heila nefnd sér til fulltingis. Væri ekki tilvalið að fresta nú fundi og halda eins og einn fund í forsætisnefnd og ræða dagskrána sem sú nefnd ber einmitt ábyrgð á?