144. löggjafarþing — 116. fundur,  1. júní 2015.

áætlun um meðferð og ráðstöfun aflamagns sem dregið er frá heildarafla.

775. mál
[18:35]
Horfa

Róbert Marshall (Bf):

Virðulegur forseti. Enn og aftur eru hér til umræðu aðgerðir til þess að plástra kerfi sjávarútvegs með einhverjum hætti, enn erum við að ræða mál tengt þessum málaflokki þar sem einhvers staðar í tillögutextanum stendur: Það tókst ekki. Það eru í rauninni að verða einkunnarorð núverandi ríkisstjórnar að mörgu leyti, ef það er ekki „það tókst ekki“ þá er það „hefði átt“ eða „gerðum það ekki“.

Hér stendur í tillögunni, með leyfi virðulegs forseta:

„Vonir stóðu til þess að fyrir gerð þingsályktunartillögunnar yrði lokið greiningu á þeim ráðstöfunum sem nú eru við nýtingu þeirra 5,3% leyfilegs heildarafla sem ætlaður er til atvinnu-, félags- og byggðaráðstafana. Það tókst ekki.“

Það mál sem hér liggur fyrir er engu að síður mál sem verður að klára í aðdraganda næsta fiskveiðiárs og eitt sem ég vil nefna hér, sem er sambærilegt því sem fram kom í máli hv. þm. Valgerðar Bjarnadóttur áðan, að hér gefst mönnum kjörið tækifæri til þess að bjóða upp aflaheimildir í makríl, reyna þá aðferð, því að hér er gert ráð fyrir því að aflaheimildir í makríl verði seldar á ákveðnu kílóverði til báta undir 30 brúttótonnum og að 80% af því magni verði ráðstafað á grundvelli umsókna. En það væri í raun og veru góður kostur að prófa uppboð á þessum heimildum.

Ég vil á þeim stutta tíma sem ég hef til ráðstöfunar gera grein fyrir stefnu míns flokks í þessum efnum. Það er okkar skoðun að markaðslausnir í sjávarútvegi eigi að miða að því að hámarka arðinn af fiskveiðiauðlindinni til hagsbóta fyrir eiganda hennar, þ.e. allan almenning á Íslandi. Þess vegna vill Björt framtíð nota markaðslausnir í sjávarútvegi ávallt þegar þær þjóna hagsmunum almennings. Að mati okkar eru uppboð á fiskveiðikvótum til nokkurra ára mjög góð leið til þess í stað þess að úthluta þeim til lokaðs hóps útgerða ár eftir ár, og reyna að leggja á eitthvert gjald sem alltaf verður mjög umdeilt og aldrei í samræmi við raunveruleg verðmæti réttarins til að veiða fiskinn og afkomu greinarinnar. Slíkt gjald verður ávallt of eða van og skilar því ekki sanngjarnri niðurstöðu og skekkir rekstrargrundvöll.

Uppboð mæla best hvað útgerð treystir sér til að greiða fyrir nýtingarréttinn og þannig fær eigandi fiskveiðiauðlindarinnar, þ.e. almenningur í landinu, það sem honum ber fyrir auðlind sína. Björt framtíð telur því að þegar kvótar og fiskveiðistjórnarkerfi eru nýtt til að fást við félagsleg viðfangsefni, svo sem erfitt atvinnuástand í einstökum byggðum eða á landsvæðum sem hafa verið og eru mjög háð sjávarútvegi, verði að vera mjög vel tryggt að þau félagslegu markmið náist og að þau séu svo mikilvæg að það réttlæti að slegið sé af ýtrustu kröfum hvað varðar arðsemi af auðlind þjóðarinnar. Það verður með öðrum orðum að vera eðlilegt hlutfall milli félagslega ávinningsins og þess sem hann kostar í mögulega minni arðsemi af nýtingu fiskveiðiauðlindarinnar sem þjóðin á og á rétt á að fá í sinn hlut.

Byggðakvóta og strandveiðar þarf að skoða og meta vel í þessu ljósi. Við verðum að læra af reynslunni og því sem mistekist hefur og því sem vel hefur gefist. Hvoru tveggja, þ.e. byggðakvóti og strandveiðar, getur vel átt rétt á sér ef tryggt er að mikilvæg byggðamarkmið eða önnur mikilvæg félagsleg markmið náist með þeim, sem ekki má ná með öðrum aðferðum. Það þarf þó að vera tryggt að um raunverulegar langtímalausnir með skýrum og raunhæfum markmiðum sé að ræða en ekki skyndireddingar eða hjakk í sama fari. Slíkt hjálpar engum en lengir bara í hengingarólum, kostar mikið en skilar litlu.

Það er mjög mikilvægt að leita allra leiða til að styðja þannig við íbúa í brothættum byggðum að þeir sem þar vilja búa geti haft arðbær störf og notið ásættanlegra lífskjara. Það hlýtur að vera meginmarkmið að byggðirnar verði sjálfbærar í atvinnulegu tilliti til lengri tíma litið. Mér finnst þó frekar hæpið að tala um að byggðir hafi rétt, en er mjög sammála því að fólk í tilteknum byggðum hafi rétt sem taka á tillit til í þessu sambandi. Spurning er þó hvort ekki sé betra, að minnsta kosti til lengri tíma litið, að gera það með því að hámarka arðinn af fiskveiðiauðlindinni sem allir landsmenn eiga saman og láta svo fólk í sjávarbyggðum fá sérstakan hluta af honum til ráðstöfunar til að byggja upp ýmsa þjónustu og atvinnutækifæri í sjávarútvegi eða öðrum greinum sem kunna að henta í viðkomandi byggð. Sú aðferð sé vænlegri en að byggðatengja kvóta með tilheyrandi óhagkvæmni og þar með minni mögulegum arði af auðlindinni sem og ógagnsæi hvað varðar kostnað af byggðastuðningi auk þess að draga þar með úr líkum á að aðrar atvinnugreinar en sjávarútvegur nái fótfestu í byggðunum.

Í mínum huga er það mikið réttlætismál að fólk sem býr í byggðum sem hafa verið mjög háðar sjávarútvegi en eiga nú undir högg að sækja vegna samdráttar í útgerð og fiskvinnslu fái drjúgan hluta af þeim arði sem fiskveiðiauðlindin skilar til að styrkja samfélög sín, atvinnu og grunnþjónustu. Ég vil alls ekki fullyrða að byggðatengingar veiðiheimilda geti ekki í einhverjum tilvikum verið góð leið eða að minnsta kosti sú skásta sem völ er á. En að fenginni reynslu hef ég hins vegar verulegar efasemdir um að byggðakvótar og byggðatengingar aflaheimilda séu almennt góðar aðferðir til að styrkja byggðir þannig að þær verði burðugar til lengri tíma litið. Það þarf einnig að gæta að því að tækniframfarir hafa þegar leitt til þess að mun færra fólk þarf til veiða og vinnslu sjávarafla en áður var. Sú þróun er í fullum gangi og mun halda áfram og við hvorki getum né eigum að koma í veg fyrir hana því að þessi tækniþróun getur aukið verulega arðinn sem hafa má af nýtingu fiskveiðiauðlindarinnar. Það sé alls ekki víst og raunar frekar ólíklegt að byggðatengingar veiðiheimilda skapi mjög mörg störf við veiðar og vinnslu í framtíðinni.

Ég held því að við ættum að hugleiða mjög vel hvort ekki sé vænlegra til árangurs til lengri tíma litið að leita leiða, m.a. með uppboðum á fiskveiðikvótum ávallt þegar það er mögulegt, til að hámarka þann arð sem þjóðin getur haft af fiskveiðiauðlindum sínum og tryggja jafnframt að stærsti hluti þess arðs fari til eigandans, þ.e. almennings í landinu. Þannig getum við fengið fé til samfélagslegra verkefna frekar en að byggðatengja kvótann með óhagkvæmni sem af því getur leitt og þar með minni mögulegum arði af auðlindinni sem og ógagnsæi hvað varðar kostnað af slíkum byggðastuðningi. Stuðningur við fólk í brothættum byggðum er eitt þeirra mikilvægu samfélagslegu verkefna. Sá stuðningur hlýtur að felast í því að gera íbúunum kleift að skjóta sem flestum og margbreytilegustu stoðum undir atvinnulíf sitt og efnahag sem og til að bæta ýmsa mikilvæga samfélagsþjónustu. Sjávarútvegur getur að sjálfsögðu verið ein þeirra atvinnustoða en það má alls ekki láta hann einan stjórna hugsuninni of mikið og framkvæmdunum. Lífið er nefnilega miklu meira en bara saltfiskur. Ef fólkið í byggðunum fær sjálft tækifæri og fjárhagslegan stuðning og svigrúm til að byggja upp byggðarlög sín til framtíðar á sem flestum atvinnustoðum er auðvitað best að það ráði sem mestu um hvað er gert og beri sem mest sjálft ábyrgð á því að gera byggðir sínar sjálfbærar í atvinnulegu tilliti til lengri tíma litið.

Þetta er grunnhugsun okkar í Bjartri framtíð. Hún er hugsuð sem aðferð til að byggja á þessari sameiginlegu auðlind okkar til eins langs tíma og mögulegt er, hverfa af þessari braut skyndilausna sem síðan eru framlengdar frá ári til árs. Það má nefna í því samhengi skelbæturnar sem eru í þessari tillögu. Þær voru settar á til þess að bregðast við skyndilegum samdrætti í skelfiskveiðum á Breiðafirði fyrir mörgum árum, örugglega meira en tíu árum ef ég man rétt, ég man ekki nákvæmlega hversu langur tími hefur liðið síðan þær voru settar á. Menn mundu ætla að byggðarlagið væri búið að jafna sig eftir þann aflabrest, en þær eru framlengdar ár eftir ár.

Strandveiðarnar voru settar á á síðasta kjörtímabili og voru umdeildar, en þær hafa að mörgu leyti sannað sig að því leytinu til að vegna þeirra hafa orðið til í mörgum byggðarlögum, sem hafa einmitt átt undir högg að sækja, fjölmörg afleidd störf. Þetta eru ekki kannski full störf, en þetta eru að minnsta kosti hlutastörf sem skapað hafa verðmæti og fjölbreytni í byggðum. Auðvitað þurfa menn á þessum tímapunkti og ávallt að vera tilbúnir til þess að skoða þetta og velta fyrir sér hvort þetta sé gott kerfi til langs tíma og hvort það þjóni þessum byggðum til lengri tíma litið.