144. löggjafarþing — 116. fundur,  1. júní 2015.

áætlun um meðferð og ráðstöfun aflamagns sem dregið er frá heildarafla.

775. mál
[18:45]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það hefur verið mikið í umræðunni að bjóða upp aflaheimildir og hámarka þannig hagnaðinn af sjávarútvegi á Íslandi og síðan sé hægt að deila þeim afrakstri til byggðanna í einhverju formi og koma til móts við þær byggðir sem gjalda fyrir mikla samþjöppun af útboði aflaheimilda.

Mig langar að spyrja hv. þingmann út í þetta. Nú vitum við að byggðir vítt og breitt um landið byggðust vegna hagkvæmni og góðs aðgengis að gjöfulum fiskimiðum. Þó að tímarnir hafi breyst og tæknin hafi rutt sér til rúms í sjávarútvegi sem og öðrum greinum þá er niðurstaðan samt alltaf sú að þessar byggðir eru til staðar. Mig langar að heyra viðhorf hv. þingmanns til þess og hvort hann telji það ekki vera til góða þegar minni sjávarbyggðir geta verið sjálfbærar og þurfi ekki að treysta á úthlutun fjármuna í einhverju formi á hverju ári til uppbyggingar heldur hafi þann grunn til að byggja á að geta treyst því að hafa aðgengi að fiskimiðunum upp að einhverju lágmarki eins og hugsunin er t.d. með því að styrkja frekar byggðatengingu aflaheimilda og skoða möguleika á því að auka byggðafestu. Er það ekki uppbyggilegra en það hlutskipti fólks að þurfa að vera þiggjendur á svæðum sem njóta þess að vera nálægt auðlindum, í þessu tilfelli sjávarauðlindum? Aðrir hafa heitt vatn og geta verið með gróðurhús og ýmiss konar atvinnustarfsemi (Forseti hringir.) hefur þróast í kringum annars konar auðlindir sem menn njóta (Forseti hringir.) góðs af.