144. löggjafarþing — 116. fundur,  1. júní 2015.

áætlun um meðferð og ráðstöfun aflamagns sem dregið er frá heildarafla.

775. mál
[18:47]
Horfa

Róbert Marshall (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég veit að hv. þingmaður þekkir það jafn vel og ég hvernig er að vinna í fiski og hversu mikil breyting hefur orðið á slíkum vinnustöðum á aðeins tveimur, þremur áratugum. Það er ekki svipur hjá sjón miðað við það sem áður var þegar maður kom sem unglingur inn í fiskivinnslustöðvar í Vestmannaeyjum. Það er ekki sami mannaflinn og það er miklu meiri tækni, miklu færri störf og í sjálfu sér miklu meiri verðmæti sem verið er að skapa.

Það sem við erum einfaldlega að segja er að þegar verið er að úthluta byggðakvóta til smærri byggðarlaga þá nýtist kvótinn að mjög litlu leyti allri byggðinni. Hann nýtist auðvitað þeim sem starfa við fiskvinnsluna, þeim sem sækja sjóinn og þeim sem eru með útgerðir. Hugsanlega væri hægt að byggja undir þessar byggðir með öðrum hætti. Hugsanlega mundu þær vilja ákveða að hafa atvinnuuppbyggingu sína öðruvísi. Það er margt sem hægt er að gera í þeim efnum. Maður sér marga jákvæða hluti verða til vegna þess að menn hafa einfaldlega aðgang að háhraðanettengingu og geta fjölgað stoðum undir sína atvinnugrein. Ég nefni dæmi eins og lýðháskólann LungA á Seyðisfirði og byggðir eins og Eyrarbakka og Stokkseyri þar sem er blómlegt menningarlíf. Það eru fleiri hlutir sem geta gerst í þessum byggðarlögum ef byggðirnar sjálfar fá einfaldlega styrki, fá hlutdeild af eign sinni í þessari auðlind til að gera það sem þær vilja. Það er hugmyndafræðin sem við í Bjartri framtíð leggjum frekar áherslu á og við teljum að hún sé áreiðanlegri til lengri tíma litið og sjálfbærari.