144. löggjafarþing — 116. fundur,  1. júní 2015.

áætlun um meðferð og ráðstöfun aflamagns sem dregið er frá heildarafla.

775. mál
[18:51]
Horfa

Róbert Marshall (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég talaði við menn sem voru á strandveiðum fyrir vestan í dag. Þar voru menn að sækja sinn rétt uppi í fjörugrjóti í 15 metrum á sekúndu. Það er ekki glæsilegt hráefni sem kemur í land við þær aðstæður, þar að auki eru menn að sækja þennan afla við dálítið illan leik. Menn verða að velta þessu fyrir sér. Nú tek ég það fram að ég var mikill stuðningsmaður strandveiðanna og er enn. Mér finnst það þurfa að vera réttlætanlegt frá byggðarlegu sjónarmiði að grípa til sérstakra ráðstafana. Við þurfum að finna línuna á milli þess að við sem eigendur þessarar auðlindar reynum að fá eins mikið fyrir hana og mögulegt er og þess að hún sé nýtt þannig að sem mest verðmæti skapist vegna þess að við eigum að taka hlutdeild af hagnaðinum sem af þessu verður að mínu mati. Þess vegna viljum við að hagnaðurinn verði eins mikill og mögulegt er. (Forseti hringir.)

Þegar við grípum til félagslegra aðgerða (Forseti hringir.) eða menningarlegra eins og strandveiðarnar eru þá þarf það að vera réttlætanlegt út frá öllum þessum mismunandi hagsmunum.