144. löggjafarþing — 116. fundur,  1. júní 2015.

áætlun um meðferð og ráðstöfun aflamagns sem dregið er frá heildarafla.

775. mál
[18:52]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna og skýra yfirferð. Það er auðheyrt að það er samhljómur hjá Bjartri framtíð með stefnu Samfylkingarinnar í sjávarútvegsmálum þó að áherslur hvað varðar útfærslur séu að einhverju leyti ólíkar.

Ég ætla að segja það að ég er mjög hlynnt markaðslausnum í sjávarútvegi, en ég lít þó svo á að það sé nöturlegt að koma í sjávarbyggðir sem hafa byggst upp í kringum sjávarútveg og engin útgerð sé þaðan. Það er hluti af bæjarbragnum, það er hluti af sjálfsmynd íbúanna. Það er mikilvægt þegar við höfum valið að fara inn í kerfi eins og við erum í núna, sem er um margt gott kerfi þó að verðlagning aflaheimilda sé til vandræða og ýmsir skavankar á kerfinu, að þegar við förum í svona mikla hagræðingu í greininni þá verðum við líka að muna að markaðurinn er þjónn en ekki herra.

Mig langar í því ljósi að spyrja hv. þingmann um þetta, nú hefði hann væntanlega eftir því sem mér skilst á hans máli viljað hafa þetta með öðrum hætti. En ég er að tala um 11. punktinn í þingsálykunartillögunni þar sem talað er um að tekjur sem fáist af ráðstöfun aflaheimilda á grundvelli þingsályktunarinnar renni til byggðatengdra verkefna samkvæmt reglugerð sem ráðherra setji. Mér finnst þetta óþægilegt ákvæði því að mér finnst það óeðlilegt þegar við vitum ekki um hve miklar fjárhæðir er að ræða. Ég er algjörlega sammála því að byggðirnar fái notið þessa í kerfi þar sem við erum með markaðar tekjur enn sem komið er. En ég vil spyrja þingmanninn, að því gefnu að tillagan verði samþykkt með þessum hætti, hvort hann sé ekki sammála mér í því að þetta ætti frekar að renna í sóknaráætlanir en að vera ákveðið við skrifborðið hjá ráðherra.