144. löggjafarþing — 116. fundur,  1. júní 2015.

áætlun um meðferð og ráðstöfun aflamagns sem dregið er frá heildarafla.

775. mál
[18:54]
Horfa

Róbert Marshall (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Jú, ég get ekki verið annað en sammála hv. þingmanni um að það er auðvitað mjög óeðlilegt og óheppilegt að þessum fjármunum verði ráðstafað með reglugerð sem ráðherra setur. Auðvitað þarf þetta að vera eitthvað sem á að koma til umfjöllunar í þinginu og verða rætt hérna áður en ákvörðun er tekin, a.m.k. sé ákvörðunin blessuð hér í þinginu.

Ég vil bara ítreka þann punkt sem var meginefni ræðu minnar í þessum efnum. Það er hægt að styðja byggðirnar og það er auðvitað eitthvað sem við þurfum að velta fyrir okkur í þessu samhengi, hvort ekki sé ástæða til þess t.d. þegar við horfum til strandveiðanna að leggja meiri áherslu á þær byggðir þar sem ekki er önnur tegund útgerðar, þ.e. þar sem stóru útgerðirnar hafa horfið frá og hvaðan kvótinn hefur horfið á síðustu árum og áratugum. Það er auðvitað alveg rétt sem hv. þingmaður segir, það er átakanlegt að verða vitni að því í þessum byggðum hvernig útgerðin hefur horfið og í staðinn hafa gjarnan komið söfn sem sýna atvinnusögu og heldur hnignandi atvinnusögu þessara byggða.

Ég held að möguleiki margra þessara byggðarlaga sé mikill ef menn horfa til þess að reyna að byggja upp fjölbreytta atvinnumöguleika. Og þá eru auðvitað ýmsir þættir sem skipta miklu máli eins og t.d. aðgangur að háhraðaneti, góðar samgöngur o.s.frv. og við eigum að nýta fjármuni sem við eigum að fá af þessari auðlind okkar í þessi verkefni.