144. löggjafarþing — 116. fundur,  1. júní 2015.

áætlun um meðferð og ráðstöfun aflamagns sem dregið er frá heildarafla.

775. mál
[19:05]
Horfa

Róbert Marshall (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég held að við hv. þingmaður séum ekkert ósammála um nauðsyn þess að ríkið geti brugðist við í tilfellum eins og með Flateyri. Málið er að menn gera þetta á hverju einasta ári. Menn hafa gert þetta mjög langt aftur í tímann með alls konar reddingum. Það er auðvitað alveg rétt, og það kom ég inn á í ræðu minni, að slíkar ráðstafanir þurfa að vera réttlætanlegar með tilliti til meginmarkmiðs okkar með umgengni við auðlindina. Það þurfa að vera að vera góð byggðaleg og félagsleg rök fyrir slíkum ráðstöfunum og menn þurfa að vera að búa til eða stefna að kerfi þar sem byggðir eru sjálfbærar, þar sem þær eru stöndugar, standa undir sér. Það er þannig sem hlutirnir þurfa að vera.