144. löggjafarþing — 116. fundur,  1. júní 2015.

áætlun um meðferð og ráðstöfun aflamagns sem dregið er frá heildarafla.

775. mál
[19:19]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur fyrir andsvarið. Hvað varðar brothættar byggðir og Byggðastofnun og það hvernig kvótanum er úthlutað held ég að meginmunurinn hafi verið sá að forsenda þess að fá úthlutað kvóta er að það hafi átt sér stað ákveðið ferli áður, þ.e. menn eru búnir að greina að þarna er staður sem hefur tapað aflaheimildum og á í erfiðleikum þess vegna, það er reiknað með því að farið sé með heimaaðilum og öllum aðilum sem þarna koma að málum yfir það hvaða lausnir koma til greina. Fyrst þegar sú aðferð var notuð ræddu menn þetta hreinskilnislega: Viljið þið vera, viljið þið fara? Það skiptir auðvitað miklu máli að svona byggðarlag sé ekki í þeirri stöðu að allir séu að reyna að verða ekki síðastir í burtu úr byggðarlaginu og sitja þá uppi með eignir sem eru verðlausar o.s.frv.

Þetta hefur orðið til þess að þarna hefur Byggðastofnun komið inn, fólkið hefur valið hvaða leiðir eru farnar. Það er einhugur um að nýta aflann í heimabyggðinni þannig að það gagnist heimabyggðinni. Þess vegna hefur verið miklu meiri jákvæðni á bak við þetta. Ég mæli eindregið með að sú leið sé notuð í auknum mæli í staðinn fyrir að vera setja smákvótaúthlutanir á stærri sveitarfélög sem hafa minna við það að gera.

Þegar talað er um að okkur og vinstri græna greini á varðandi kvótaþing þá er kvótaþing töluvert annað en uppboðsmarkaður. Við höfum talað um tilboðsmarkað sem þýðir að menn geta verið á markaðnum í töluverðan tíma, fylgst með verðunum og metið hvað þeir treysta sér til þess að sækja aflaheimildir og það er hægt að setja alls konar reglur í kringum það. Aðalatriði er að þetta sé ríkisrekið kvótaþing og því sé stýrt þar, það séu ekki hagsmunaaðilar sem hagnast á því að selja o.s.frv.

Varðandi byggðatengsl við (Forseti hringir.) tekjurnar tek ég undir að það væri mjög æskilegt.