144. löggjafarþing — 116. fundur,  1. júní 2015.

áætlun um meðferð og ráðstöfun aflamagns sem dregið er frá heildarafla.

775. mál
[19:22]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Aukin byggðafesta er meðal annars það sem við vinstri græn höfum lagt til. Hér liggur fyrir tillaga sem þrír þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs hafa lagt fram til að mynda til eflingar brothættra byggða, sem tekur á byggðafestu aflaheimildanna. Ég held að það sé eitt af því sem hefur skort á í þessu. Ég kem úr sveitarfélagi þar sem hinn almenni byggðakvóti hefur farið á stærri aðilana og þeir minni ekki notið góðs af og gjarnan hefur staðið styr um það og ýmsar kærur og annað og hefur þurft að breyta og bæta í því.

Mig langar í síðara andsvari mínu að ræða aðeins um strandveiðarnar. Það er svolítið um það deilt hvort þetta sé nægjanlegt til þess að strandveiðarnar geti haldið áfram að blómgast, þannig að það geti verið upphafið fyrir nýja aðila sem vilja fara að róa, að þeir geti í rauninni byggt á því, þetta sé hluti af undirstöðu þeirra. Ég held að hv. þingmaður hafi eins og ég séð hvernig það er með kvótalitla báta sem hafa fengið kvóta í gegnum strandveiðarnar, þetta hefur aukið möguleika á nýliðun. Svo er það líka vinnan, menn geta starfað við þetta allan ársins hring. Einnig er það ferðaþjónustan, og ég sé það í mínum heimabæ, en það er gjarnan talað um að lífið hafi færst í hafnirnar og þetta skiptir máli fyrir ferðaþjónustuna, sérstaklega útlendingum þykir gaman að þessu.

En mig langaði sem sagt að spyrja hv. þingmann hvort hann telur þá hlutdeild sem hér er lögð til nægjanlega til þess að halda við strandveiðum og byggja undir (Forseti hringir.) nýliðun, eins og hér er lagt til, og ef ekki hvað hann telur þá að við gætum þurft til viðbótar.