144. löggjafarþing — 116. fundur,  1. júní 2015.

áætlun um meðferð og ráðstöfun aflamagns sem dregið er frá heildarafla.

775. mál
[19:24]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ein leiðin til að tryggja afkomu getur einmitt verið byggðafesta. Ég vil þó halda því til haga að ég er einn af þeim sem hafa talað um að við rekum gríðarlega hagkvæman og öflugan sjávarútveg og megum ekki missa það niður, við megum ekki fara að gera þetta að byggðapólitísku máli, að senda þetta hingað og þangað, þetta verður að vera markaðslögmál. Við erum að berjast við alþjóðlegan markað og margt af þessu er orðið þvílíkt flott framleiðsla, jafnvel strandveiðafiskurinn er þannig að menn semja um það hvar hann fer á markað innan tveggja, þriggja daga. Það er búið að velja nákvæmlega; þessi fiskur fer í þessa verslun og hann fer þessa leið í gegnum kerfið o.s.frv. Við megum alls ekki missa þetta, það má ekki vera nein rómantík í því. En ég er algjörlega á þeirri skoðun að strandveiðin hafi orðið ánægjuleg viðbót og það þurfi að auka þær meira. Samtímis verðum við að vera mjög skýr í því að þetta er kerfi sem þrífst við hliðina á kvótakerfinu og má aldrei fara í kvótann, vegna þess að ef það gerist einu sinni enn að menn fara að kvótafesta strandveiðiafla erum við komin í sömu vitleysuna og hefur að minnsta kosti verið farið tvisvar sinnum í gegnum hér áður.

Ég held að það skipti mjög miklu máli að þetta sé það sem það er. Þetta gerir mönnum mögulegt að lifa með þann litla kvóta sem fyrir er, getur líka verið mögulegt bara með sumarvinnu, getur verið viðbót til að bjarga fólki gegnum ákveðið tímabil á árinu. Fyrst og fremst er þetta það sem færir líf í byggðarlögin. Ég tel því að þetta sé of lítið, en ég sé alls ekki fyrir mér að það eigi að stækka það nein ósköp og alls ekki að setja það í kvóta.