144. löggjafarþing — 116. fundur,  1. júní 2015.

um fundarstjórn.

[20:01]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Ég er næst á mælendaskrá og verð að lýsa furðu minni á því að hér sé ekki staddur sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Nú virðist hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra vera staðgengill hans. Ég vona að hún komi og rökræði þetta mál við mig í anda róttækrar rökhyggju.

Ég lýsi furðu minni á því að hér höfum við í minni hlutanum tekið þátt í því að afgreiða mál hæstv. sjávarútvegsráðherra með afbrigðum til að greiða fyrir því að það kæmist á dagskrá. Ég veit ekki betur en hann hafi greitt atkvæði með því að hafa lengri þingfund hér í dag til þess eins að hverfa síðan af landi brott. Það hlýtur að vera fyrst hann er hér með staðgengil sinn. Er það virkilega rétt, hæstv. forseti, að hæstv. sjávarútvegsráðherra telji þetta mál ekki svo mikilvægt að hann geti ekki verið á landinu á meðan það er í 1. umr. og að hann hafi í þokkabót ætlað okkur að vera hér í kvöld á meðan hann væri í burtu?