144. löggjafarþing — 116. fundur,  1. júní 2015.

áætlun um meðferð og ráðstöfun aflamagns sem dregið er frá heildarafla.

775. mál
[20:02]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Forseti. Ég vil byrja á að harma það að forseti hafi ekki svarað minni einföldu spurningu. Henni var hægt að svara með einu orði, já, eða flóknari skýringum ef svarið var nei.

Nú að málinu. Þetta mál er hér lagt fram, málið sem kallast litli pottur. Hér erum við á grundvelli laga um fiskveiðistjórn að fjalla um þingsályktunartillögu um áætlun um meðferð og ráðstöfun aflamagns sem dregið er frá heildarafla, samkvæmt 5. mgr. 8. gr. laga um stjórn fiskveiða.

Það var ansi gott að því var komið til leiðar af atvinnuveganefnd að ráðherra þyrfti að koma með þingsályktunartillögu um skiptingu þessa aflamagns. Myndaður var starfshópur sem vann ágætlega að því að skipta þessu niður á hinar ýmsu tegundir. Hér er 5,3% af heildaraflanum ráðstafað á grundvelli ýmissa greina laganna um fiskveiðistjórn. Þeim er skipt niður til strandveiða, rækju- og skelbóta, stuðnings byggðarlögum, aflamarks Byggðastofnunar til línuívilnunar og til frístundaveiða. Svo er hér verið að ræða um aflaheimildir í makríl og aflaheimildir í síld og ýmislegt fleira.

Ég kem hingað upp, hæstv. forseti, því að það eru nokkur atriði sem ég hef athugasemdir við. Eins og alþjóð veit er Samfylkingin hlynnt markaðskerfi á útdeilingu aflaheimilda, en við erum jafnframt þeirrar skoðunar að það þurfi að tryggja að áfram verði hægt að stunda í einhverjum mæli sjávarútveg í þeim byggðum sem hafa misst aflaheimildir í gegnum kvótakerfið og eins verði hægt út frá byggðasjónarmiðum um brothættar byggir að koma til móts við þau byggðarlög.

Það sem vekur ekki síst furðu mína eru aflaheimildir í makríl sem á að selja á ákveðnu kílóverði til báta undir 30 brúttótonnum að stærð til veiða á grunnslóð. Þetta á að selja og það má ekki færa á milli báta. Svo er farið yfir hvernig 80% af þessu á að fara á grundvelli umsókna, 20% á að fara eftir umsóknum sveitarstjórna og þær heimildir sem ekki hafa gengið til tilgreindra báta í samræmi við þetta kerfi verða boðnar til kaups í sambærilegu ferli. Þetta er mjög furðulegt. Við erum að tala um allmikið magn af makríl, en við vitum ekkert um hvaða verð er verið að tala. Markaðurinn á ekki að ákveða það verð, hæstv. forseti, og ekki þingið þó að ég hafi efasemdir um aðkomu þingsins að því — nei, ráðherra á bara að taka ákvörðun um það. Í tillögunni kemur ekki fram hvaða fjárhæðir við erum að afsala okkur fjárveitingavaldi á til ráðherra.

Í 9. lið tillögunnar er hins vegar talað um sumargotssíld og úthlutanir á henni. Þar segir að selja eigi til báta undir 30 brúttótonnum heimildir til síldveiða á grunnslóð og kveðið á um að verðið skuli vera á 16. kr. kílóið.

Nú verð ég að segja að lög um fiskveiðistjórn eru ekki sérstaklega einföld ef maður er ekki þeim mun betur að sér í þeim. Þar er ansi mikið fjallað um með hvaða hætti ráðherra gefur út reglugerðir og skiptir og dírigerar. Það er eiginlega skrifborð ráðherra og skúffurnar í því sem eru meginuppistaðan í því kerfi sem við erum að tala um í þessari þingsályktunartillögu.

Ég vil í þessu samhengi benda fulltrúum atvinnuveganefndar á 8. liðinn í yfirlýsingum ríkisstjórnarinnar vegna kjarasamninga, sem heitir eftirlit með atvinnustarfsemi. Þar er einmitt talað um að endurskoða skuli löggjöf sem hefur áhrif á atvinnulífið, draga úr reglubyrði og einfalda samskipti við opinbera aðila. Ég held að fiskveiðilöggjöfin sé hreinlega frábær byrjunarreitur í þeim efnum. Hana má heldur betur einfalda og auka hlutdeild almennings í arðinum af auðlindinni með því að bjóða upp heimildirnar.

Nú skal ég ekki segja að þetta eigi við í öllum tilfellum. Hér er verið að beita sértækum aðgerðum. En það er ágætt að það verð sem notað er taki mið af því markaðsverði sem ætti að finnast á markaði með eðlilegu uppboði aflaheimilda. Það er nefnilega þannig, hæstv. forseti, að við treystum þeim sem stunda sjávarútveg til þess að skipta á milli sín tegundum sem þurfa þó að vera jafngildar hvað þorskígildi varðar. Við treystum þeim alveg til þess að eiga þau viðskipti sín á milli. Markaðurinn virðist alveg ráða við það. Útgerðin veit alveg hvað hana vantar af tegund inn í aflamark sitt til að geta náð sem bestum og hagkvæmustum rekstri, geri ég ráð fyrir. Ég mundi halda að útgerðin væri betur til þess fallin að meta hvaða verð hún treystir sér til að greiða fyrir aflann en ráðherra með útgáfu reglugerðar.

Varðandi þessa reglugerð þá hef ég töluverðar áhyggjur af því að hún virðist byggð á algildri tillögu í 8. gr. Í næstsíðustu málsgrein hennar segir, með leyfi forseta:

„Ráðherra er heimilt að kveða nánar á um framkvæmd ákvæða greinarinnar í reglugerð.“

Við vitum að ráðherra á að gera þetta með tilliti til byggðatengdra verkefna, en í raun og veru vitum við ekkert mikið meira.

Ég vil fara þess á leit að eftir umfjöllun atvinnuveganefndar — ég sit ekki þar þannig að ég beini þessu til nefndarmanna, það er nú eingöngu einn hér í salnum þannig að ég treysti á hv. þm. Lilju Rafneyju Magnúsdóttur — fáum við upplýsingar um hvaða fjármunir eru þarna í húfi. Hvert er virði þeirra aflaheimilda sem hér er verið að tala um úthlutun á? Hvert er virði þeirra aflaheimilda sem ráðherra ætlar að endurráðstafa með reglugerð til byggða út frá byggðasjónarmiðum? Mér er til efs að okkur sé heimilt að afsala okkur fjárveitingavaldinu með þessum hætti.

Ég legg til að gerðar verði breytingar á þessu þannig að á meðan við búum við kerfið eins og það er þá verði þeir fjármunir sem ráðherra vill ákveða sjálfur með reglugerð settir í sóknaráætlanir landshluta. Þá væru það byggðirnar sjálfar, á grundvelli byggðasjónarmiði og byggðastefnu sem samkomulag væri um í landshlutanum, sem ákvörðuðu með hvaða hætti þær ráðstöfuðu þessum fjármunum. Hitt gefur eingöngu ástæðu til að ætla að það gæti orðið tilefni til spillingar því að þetta er svo loðið og falið, auk þess sem (Forseti hringir.) reglugerðin sem þetta á að grundvallast á liggur (Forseti hringir.) ekki fyrir.