144. löggjafarþing — 116. fundur,  1. júní 2015.

áætlun um meðferð og ráðstöfun aflamagns sem dregið er frá heildarafla.

775. mál
[20:19]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Nei, ég er ekki hlynnt því að það sé fullkomlega opið og óheft. Það má setja mjög skýrar reglur um hámarksaflahlutdeild og slíkt um slíkan markað rétt eins og við höfum í dag.

Margar atvinnugreinar búa við það að þurfa að bjóða í aðföng sín á markaði ef um er að ræða einkaleyfi af einhverju tagi. Það hlýtur að vera markmiðið að það sé einhvers konar ballans á milli þess að hámarka arðsemi okkar af þeim auðlindum sem við eigum á móti því að koma í veg fyrir óeðlilega samþjöppun í greininni og óeðlilega stöðu í samkeppni; rétt eins og á matvörumarkaði þar sem ákveðnar verslanir hafa í krafti stærðar og dreifingar getað náð lægra vöruverði en eru síðan komnar í þannig markaðsráðandi stöðu að geta farið að stjórna vöruverði, og það ekki endilega neytendum til hagsbóta. Þar koma samkeppnisyfirvöld inn í og löggjafinn. (Gripið fram í.)

Ef til þess kemur, sem ég ætla rétt að vona, að við breytum þessu kerfi þannig að auðlindir landsins verði lýstar þjóðareign í stjórnarskrá og fyrir notkun þeirra komi fullt verð þurfa samkeppnisyfirvöld að vera þar viðloðandi og ríkisvaldið að setja skýrar leikreglur á þeim markaði.