144. löggjafarþing — 116. fundur,  1. júní 2015.

áætlun um meðferð og ráðstöfun aflamagns sem dregið er frá heildarafla.

775. mál
[20:32]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna. Ég kem hingað og spyr hana út í sérstakt hugðarefni mitt sem er 11. liður þingsályktunartillögunnar um að tekjurnar sem fást fyrir aflaheimildir á grundvelli þessarar tillögu renni til byggðatengdra verkefna samkvæmt reglugerð sem ráðherra setur.

Þessi ráðstöfun á 5,3% af heildaraflanum er til þess fallin að styrkja byggðir sem hafa lent í vandræðum annaðhvort vegna þess að kvótinn hefur horfið þaðan eða vegna annarra tímabundinna erfiðleika. Mér finnst sjálfsagt, fyrst við erum með kerfi með mörkuðum tekjum, að tekjurnar renni í byggðatengd verkefni en mér finnst ekki sjálfsagt að úthlutun þeirra sé gerð á grundvelli reglugerðar sem ráðherra setur með mjög opinni heimild í lögunum. Við fáum enga frekari skýringu á því hvert markmiðið með úthlutuninni á að vera aðra en þá að það eigi að vera byggðatengt. Við vitum ekki hvort það gæti mögulega farið til ákveðinna einstaklinga eða fyrirtækja. Til hvaða fyrirtækis á það þá að fara? Á það að fara í uppbyggingu? Á hverju? Á einhverjum innviðum eða mennta- og heilbrigðiskerfinu á staðnum? Þetta er mjög opið.

Því vildi ég spyrja hv. þingmann hvort hún teldi ekki skynsamlegra að fjármagnið rynni til sóknaráætlana út frá einhverju ákveðnu kerfi sem íbúar svæðanna gætu sjálfir forgangsraðað innan hvernig féð nýttist sem best í þágu byggðaþróunar.