144. löggjafarþing — 116. fundur,  1. júní 2015.

áætlun um meðferð og ráðstöfun aflamagns sem dregið er frá heildarafla.

775. mál
[20:37]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka svarið. Í þessari þingsályktunartillögu eru 11 liðir. Svo eru gefnar ágætisskýringar, misgóðar, en 11. liður er einna rýrastur. Í skýringu á honum er bara endurtekið það sem stendur í liðnum sjálfum. Það er engin frekari afmörkun. Það sem meira er, þetta er reglugerð sem á eftir að smíða og ekkert er sagt um markmiðið.

Ég vil spyrja hv. þingmann, sem er ein af vöskum fulltrúum minni hlutans í fjárlaganefnd, hvort það samræmist í raun og veru fjárveitingavaldi Alþingis í fyrsta lagi að gefa út óútfylltan tékka á fjármuni úr ríkissjóði, því að það kemur ekkert fram hvaða fjármunum við eigum að veita hæstv. ráðherra leyfi til að úthluta, og í öðru lagi að við vitum ekkert í hvað hann ætlar að úthluta fénu nema byggðatengd verkefni sem er gríðarlega vítt hugtak. Það eru sem sagt þessi tvö atriði sem eru furðuleg, þ.e. fjárhæð sem við þekkjum ekki fer til markmiða sem við þekkjum ekki nema með mjög víðri skilgreiningu. Er ekki svolítið einkennilegt að við sem fjárveitingavald eigum að heimila þetta? Þetta eru 5,3% af heildarafla á Íslandsmiðum. Þótt einhverjum finnist ekki nóg að gert þá eru þetta engin smáræðisverðmæti. Það er ekki haft fyrir því að kasta tölu á hvað þetta gætu verið miklir fjármunir og við fáum ekki að vita í hvað þeir eiga að fara. Samræmist þetta fjárveitingavaldi okkar?