144. löggjafarþing — 116. fundur,  1. júní 2015.

áætlun um meðferð og ráðstöfun aflamagns sem dregið er frá heildarafla.

775. mál
[20:41]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir hennar góðu ræðu og ég vil taka undir með þeim hv. þingmönnum sem hér töluðu áðan, Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur og Bjarkeyju Gunnarsdóttur, um að auðvitað verða menn að hafa einhverja hugmynd, það hlýtur að vera hægt að finna út að minnsta kosti efri og neðri mörk á því hvað út úr þessu gæti komið, menn geta ekki rennt algerlega blint í sjóinn með þetta. Ég held að við höfum fullan skilning á því að það gætu verið einhverjir óvissuþættir en menn eigi að geta gefið okkur einhverja grófa mynd af því hvað gæti í minnsta lagi og að minnsta kosti komið.

En það var ekki það sem ég ætlaði að spyrja hv. þingmann að heldur hafði ég áhuga á því að spyrja hana um lið 4 í þessari ályktun, þ.e. 17,3% til aflamarks Byggðastofnunar. Þar er verið að miða þeim hluta til hinna svokölluðu brothættu byggða, en á síðasta kjörtímabili hófst mikil vinna við að reyna að koma til móts við þær og lyfta undir og reyna að stuðla að því að þær styrktust. Það voru margar ólíkar aðgerðir settar fram sem eiga að ná þeirri niðurstöðu að þessar byggðir styrkist og þetta er ein áhugaverð leið.

Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hún viti hvernig þetta hafi gengið, þ.e. hvaða áhrif hún telji að þetta hafi haft á brothættar byggðir. Ég tel að hér sé um mjög áhugaverða nálgun að ræða og fyndist áhugavert að heyra hvort hv. þingmaður þekkir til þess.